Fara í innihald

Brennisóley

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ranunculus acris)
Brennisóley
Brennisóley (Ranunculus acris)
Brennisóley (Ranunculus acris)
Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Sóleyjabálkur (Ranunculales)
Ætt: Sóleyjaætt (Ranunculaceae)
Ættkvísl: Sóleyjar (Ranunculus)
Tvínefni
Ranunculus acris

Brennisóley (fræðiheiti: Ranunculus acris) er blóm af sóleyjaætt sem finnst út um allt í Evrópu, Asíu, Afríku og Norður-Ameríku, meðal annars á Grænlandi og Íslandi. Brennisóley verður 30-100 cm á hæð. Hún vex í graslendi, á engjum og í fjallshlíðum í allt að 2.400 metra hæð.

Blómið er gult með fimm krónublöð. Safi jurtarinnar inniheldur ranúnkúlín sem breytist í eiturefnið prótó-anemónín við vatnsrof. Þetta veldur því að grasbítar á beit forðast hana en geta hins vegar étið hana sé hún þurrkuð (t.d. við slátt og verkun í hey). Langtímasnerting getur valdið roða og neysla bólgum í maga.

Á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi blómgast brennisóleyjar í maí til júní[1] og finnast um nánast allt land[2] (m.a. í Surtsey[3]), í fjalllendi finnst hún oft upp í 900 metra hæð en er hæst fundin í 1100 metra hæð á Litlahnjúk við Svarfaðardal.

Nýlegar rannsóknir benda til þess að brennisóley á Íslandi sé ekki í raun og veru R. acris, heldur R. subborealis,[4] en þær eru mjög líkar og þekkjast einna helst á hæringu á stönglum (hvít aðlæg = R. acris. gul, gróf = R. subborealis).[5] Enn er þó ekki full eining um aðskilnað R. subborealis frá R. acris, og almennt virkar hún sem norðlægari útgáfa af R. acris.

  1. „Brennisóley“. Sótt 6. ágúst 2005.
  2. „Dreifing brennisóleyjar“. Sótt 6. ágúst 2005.
  3. „Gróður í Surtsey“. Sótt 6. ágúst 2005.
  4. „Flóra Íslands Flóran Blómplöntur“. www.floraislands.is. Sótt 19. júlí 2021.
  5. „Ranunculus subborealis ssp. villosus - The Flora of Svalbard“. svalbardflora.no. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. júlí 2021. Sótt 19. júlí 2021.